02/12/2020 • Guðrún Svava Kristinsdóttir

Drónar – Kominn tími til að bæta þeim við vinnuaflið?

Origo grein

 

Drónar – Kominn tími til að bæta þeim við vinnuaflið?

 

Við höfum vanist hugmyndinni um dróna á undanförnum árum. Nýting þeirra í hernaði, hvort sem það er í sprengjueyðingu eða til hnitmiðaðra árása, á ekki lengur heima í vísindaskáldsögum, fréttir birtast í auknum mæli um notkun (og misnotkun) áhugamanna og glæpamanna á drónum og við bíðum enn eftir fyrstu heimsendingunni frá Amazon með dróna.

En meðan við bíðum hafa önnur fyrirtæki þegar innleitt dróna sem hluta af vinnuafli sínu. Hér verður fjallað um nokkra af þeim notkunarmöguleikum sem þegar hafa rutt sér til rúms til þess að undirstrika hvernig drónar geta stuðlað að bættum vinnuaðferðum og orðið kveikja að nýjum hugmyndum fyrir lesendur okkar um hvernig má nýta þá í margs konar starfsemi.

 

Öryggismál

Fyrir nokkrum árum byrjaði Easyjet að nota dróna til að framkvæma skoðanir á flugvélum og nú eru drónar notaðir í svipuð verkefni í ýmsum atvinnugreinum. Skoðun flugvéla er ekki auðvelt verk fyrir menn. Komast þarf upp að skrokki vélarinnar og kanna hann gaumgæfilega í leit að smávægilegum merkjum um skemmdir. Með dróna er hins vegar hægt að komast hratt og örugglega að öllum svæðum flugvélarinnar, taka háskerpumyndir og forrita hann til að fara skipulega yfir hvern krók og kima án þess að yfirsjást nokkuð.

Þarna nýtast þrír lykilkostir dróna: Hraði og snerpa, geta til að bera skynjara og óþreytandi nákvæmni.

Þessir kostir eru jafnframt nýttir í atvinnugreinum á borð við byggingariðnað, olíuefnageiranum og vöruflutningum þar sem þarf að framkvæma skoðanir í mikilli hæð, neðansjávar eða með skynjurum til að greina gasleka eða hitatap.

 

Stórkostlegar myndir

Drónar geta tekið magnaðar loftmyndir, sem hefur leitt til gríðarlegra tækifæra í auglýsingagerð fyrir fyrirtæki af öllum stærðum. Áður fyrr þurftu fyriræki sem vildu gera auglýsingu með myndefni úr lofti að nota þyrlu eða jafnvel tölvugrafík, með mjög miklum tilkostnaði. Slíkt var þess vegna einungis á færi stórra fyrirtækja sem framleiddu stórbrotnar auglýsingar til sýninga í kvikmyndahúsum.

En dróni með hágæðamyndavél getur tekið tilkomumiklar loftmyndir með viðráðanlegum kostnaði og sífellt fleiri fyrirtækjum er nú kleift að nýta þennan möguleika við gerð markaðsefnis fyrir stafræna miðla. Takmörkin ráðast eingöngu af hugmyndafluginu.

 

Umfangsmeiri afköst

Mörg verkefni í tengslum við búskap eru einhæf og reglubundin eins og að plægja akra, úða skordýraeitri, uppskeruvinna, skoða girðingar, eftirlit með byggingum og búfénaði. Möguleikar til að forrita landbúnaðarvélar aukast stöðugt svo í mörgum tilfellum er mannafli óþarfur og í staðinn eru notaðir sjálfkeyrandi traktorar sem annast plægingu og uppskeru á sjálfvirkan hátt.

Jafnframt getur kúrekinn eða smalinn, sem áður var allan daginn að ríða um búgarðinn eða á flakki yfir holt og hæðir, sinnt stórum hluta búfjárræktar með dróna. Kostirnir eru að dróninn kemst yfir meira landsvæði á mun skemmri tíma og getur sent myndir úr lofti eða lágflugi og þannig komið auga á ýmislegt sem gæti farið fram hjá mannfólki á jörðu niðri.

Vöruflutningar

Sendingardrónar eru klárir í slaginn, einu takmarkanirnar eru flugumferðarreglur sem krefjast þess að drónar séu ávallt í sjónlínu flugmanns. Í löndum þar sem slík skilyrði gilda ekki eru sendingardrónar þegar notaðir til að flytja sjúkragögn á milli spítala og flytja vörur yfir ár.

En möguleikar á nýtingu dróna við flutninga takmarkast ekki við vöruafhendingar. Notast er við dróna í starfsemi vöruhúsa, þeir eru útbúnir skönnum til að annast sjálfvirka birgðastýringu og flýta fyrir ferlinu sem felst í að tína til vörur og pakka þeim. Þeir eru líka notaðir til að flytja vörur innan vinnusvæða og leysa þannig mannfólk af hólmi ásamt því að auka skilvirkni þjarkatækni sem þegar er fyrir hendi í framleiðslulínunni.

 

Tími til að ná nýjum hæðum?

Drónar svara að mörgu leyti spurningunni um hverju menn gætu áorkað ef þeir hefðu vængi. En tækifærin sem fyrirtækjum bjóðast einskorðast ekki við fluggetu dróna. Dróna er hægt að nota í og á vatni sem og á landi. Í ákveðnum tilvikum hafa drónar jafnvel farið gegnum göng.

Hér hafa aðeins verið nefnd örfá dæmi sem undirstrika grundvallareiginleika dróna: Hraði og snerpa, öryggi, viðráðanlegt verð, skönnunargeta, burðargeta, þolgæði og nákvæmni. Ef einhverjir þessara eiginleika þykja eftirsóknarverðir þegar kemur að ráðningu vinnuafls gæti verið ráðlegt að íhuga notkun dróna. Þannig væri jafnvel hægt að ná nýjum hæðum.

https://images.prismic.io/new-origo/b7136863-2bea-4b99-ae6c-c272bd69b85b_3150.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Guðrún Svava Kristinsdóttir

Sérfræðingur í markaðsmálum

Deila bloggi