06/06/2022
Origo styrkir UN Women
Barnabókin Ofurhetjur í einn dag er gefin út til styrktar UN Women. Origo hefur stutt við verkefnið og gaf starfsmönnum eintak af bókinni ásamt öllum bókasöfnum í grunnskólum Reykjavíkur.

Ég er búin að vinna mikið með börnum og unglingum í gegnum tíðina varðandi það að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust, en grunnurinn að svo mörgu er að eiga góða vini og koma vel fram við aðra,“ segir Anna Steinsen, sem hafði að markmiði að valdefla ungar stúlkur og börn þegar hún skrifaði barnabókina Ofurhetjur í einn dag.
Bókin fjallar um samkennd, vináttu og gleði og segir frá flóttabarninu Kaju sem kemur til Íslands og eignast þar vinkonu. Þær leika saman og eru ofurhetjur í einn dag.

„Það er ótrúlega góð leið að kenna börnum í gegnum bækur og lestur. Það krefur foreldra til að eiga samtal við börnin sín um alls konar mikilvæg málefni. Við höfum aldrei tekið á móti jafnmörgum flóttamönnum og nú og þetta eru aðallega konur og börn. Að vera á flótta fer illa með alla og þá sérstaklega börn. Þá skiptir öllu máli að taka vel á móti þeim og hlúa vel að þeim,“ segir Anna.
Bókin er gefin út til styrktar UN Women. Rannsóknir sýna að þegar konur fá menntun og valdeflast þá efli þær fjölskylduna í leiðinni. Þannig eru mæður besta forvörnin og stuðningur við menntun barna sinna.
Takmark Önnu er að börn um víða veröld fái að lesa bókina. „Ég vildi óska þess að einn daginn væri stúlka úti í heimi að lesa þessa bók og hún hefði jákvæð áhrif á stúlkuna. Myndi valdefla hana.“
Origo hefur stutt við verkefnið og gaf starfsmönnum eintak af bókinni ásamt öllum bókasöfnum í grunnskólum Reykjavíkur. Anna segir að stuðningur Origo sé mikilvægur og hún hvetur íslensk fyrirtæki að láta gott af sér leiða í þágu flóttafólks og styrkja fleiri svona verkefni.
Deila frétt