Stefna og viðbragðsáætlun

Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti og kynferðislegri áreitni

Það er stefna Origo að tryggja starfsfólki heilbrigt og öruggt starfsumhverfi og að uppræta einelti og kynferðislega áreitni í samfélaginu. Einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi, í hvaða mæli eða mynd sem það birtist, er ekki liðin hjá Origo. Það er á ábyrgð bæði stjórnenda og starfsfólks að fyrirbyggja og bregðast við slíkri hegðun. Stefna og viðbragðsáætlun Origo er kynnt nýju starfsfólki til að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi.

Áætlunin nær yfir samskipti starfsfólks Origo og annarra sem það á samskipti við í tengslum við starf sitt. Undir þetta falla einnig athafnir, fundir eða samkomur sem eiga sér stað utan vinnustaðarins, ef þær hafa áhrif á samskipti á vinnustað. Aðilar máls geta verið aðilar utan starfsmannahópsins, s.s. stjórnarmaður, verktaki hjá Origo, viðskiptavinur eða annar óháður aðili. Ef starfsmaður eða annar þolandi verður fyrir einelti, kynbundnu ofbeldi eða hvers kyns kynferðislegri áreitni að hálfu aðila frá eða á vegum Origo, er hann/hún hvött til að tilkynna án tafar um áreitið, sjá nánar hér neðar undir viðbrögð og tilkynning. Stefna og viðbragðsáætlun Origo er sett á grundvelli 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Stefna og viðbragðsáætlun er í samræmi við mannauðsstefnu og jafnréttis- og jafnlaunastefnu Origo.

Skilgreiningar og birtingarform Skilgreining Origo á því hvað teljist einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi byggir á 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

 • Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

 • Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

 • Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

 • Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Upplifun þolanda skiptir mestu þegar rætt er um einelti og áreitni. Þolandi metur hvaða framkomu hann umber og frá hverjum og að segja frá sé honum misboðið.

Birtingarform geta verið margskonar og má hafa eftirfarandi texta til leiðbeiningar. Listinn er ekki tæmandi.

Einelti

 • Sjáanlegt einelti: Orð eða athafnir sem sjást og heyrast, t.d. stríðni eða niðurlægjandi ummæli, skipulögð egning eða áreitni til að espa einstakling upp.

 • Dulið einelti: Andleg niðurlæging eða kúgun og hótanir. Félagsleg einangrun t.d. þegar einstaklingur er skilinn útundan og hafnað. Baktal og sögusagnir.

Einelti er ekki alltaf af ásetningi heldur getur verið um hugsanaleysi eða ómeðvitaða framkomu að ræða. Slík hegðun á þó aldrei rétt á sér.

Kynferðisleg áreitni

 • Kynferðislegar athugasemdir, óviðeigandi athugasemdir um kynferðisleg málefni og útlit, dónatal.

 • Að virða ekki mörk. Dæmi: Virða ekki „ég vil ekki“, „ég hef ekki áhuga“. Að halda áfram að reyna við einstakling þegar búið er að hafna. Óvelkomin eða óviðeigandi stafræn samskipti.

 • Óviðeigandi sendingar af efni sem innihalda kynferðislegt efni.

 • Óvelkomnir kynferðislegir tilburðir, tilboð eða kynferðislegar athugasemdir, ummæli eða klúrt orðalag t.d. um klæðaburð. Þetta á einnig við samskipti í gegnum miðla eins og samfélagsmiðla og tölvupóst.

 • Öll snerting sem er ósamþykkt, svo sem klíp, klapp, káf eða strokur.

 • Líkamlegt ofbeldi og árásir af kynferðislegum toga eða tilraunir til slíkrar háttsemi

Kynbundin áreitni

 • Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni eða kynhneigð.

 • Niðrandi athugasemdir sem snúa að kyni eða staðalmyndum viðhaldið.

 • Niðurlæging vegna kyns eða kynhneigðar.

Stefna og viðbragðsáætlun Origo nær til starfsfólks, stjórnenda og annarra þeirra sem starfa hjá eða í tengslum við starfsemi Origo. Gripið verður til aðgerðar ef upp kemur að starfsmaður hafi beitt eða orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi í formi áminningar eða með uppsögn geranda. Alvarlegustu tilvik geta leitt til kæru að höfðu samráði við þolanda. Meðvirkni annarra er með öllu óásættanleg.

Viðbrögð og tilkynning

Sá aðili sem verður fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustaðnum er beðin um að tilkynna hegðunina tafarlaust. Tilkynning getur borist til:

 • Næsta yfirmanns

 • Trúnaðarmanns

 • Mannauðs / mannauðsstjóra

 • Velferðarþjónustu Heilsuverndar sem er Þjónustuaðili Origo í velferðarmálum.

Mannauðsstjóri Origo hefur yfirumsjón með ferli mála og fylgir því eftir að ferlið fái meðferð samræmi við viðbragðsferli Origo og sækir viðeigandi fagþjónustu eftir atvikum frá þjónustuaðila. Sjá nánar um meðhöndlun tilkynninga hér í undirkafla 1.2.1.

Origo tekur á málum sem snúa að einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi af festu. Viðbrögð gagnvart meintum gerendum í málum sem varða alvarlegt einelti, kynferðislega áreitni eða ofbeldi eru útlistuð í 4 stigum, eftir alvarleika viðbragða (sjá mynd 1 hér til hægri).

Útskýringar á alvarleikastigum á 1 til 4

1.stig: Mál þar sem starfsfólk óskar eftir óformlegri málsmeðferð eða í tilvikum þar sem samstarfsfélagar sjá eða heyra um mál sem þau telja að þurfi að skoða betur. Ef mál er metið það vægt að ekki þykir ástæða til rannsóknar eða að farið sé með málið lengra, er samtal tekið við geranda (ef þolandi samþykkir) í formi munnlegrar áminningar eða skriflegrar áminningar ef ástæða þykir.

2.stig: Mál þar sem um rökstuddan grun um einelti eða kynferðislega áreitni er að ræða. Gerandi settur í leyfi á meðan á rannsókn stendur. Ytri fagaðilar fengnir til að rannsaka mál af hlutleysi.

3. stig: Leiði rannsókn óháðs aðila í ljós að um einelti eða kynferðislega áreitni er að ræða, er geranda jafnvel sagt upp störfum, eftir alvarleika máls

4. stig: Í einhverjum tilfellum kann brot að vera það alvarlegt að það leiði til fyrirvaralausrar brottvikningar úr starfi. Alvarleg kynferðisleg áreitni flokkast sem alvarlegt brot í starfi og umsvifalaust tekið á slíku, með vísan í ákvæði í ráðningarsamningi.

Hugað er að því að vinnuaðstæður þolanda séu þannig að þolandi njóti stuðnings og upplifi sig öruggan á vinnustaðnum á meðan á málsmeðferð stendur.

Eftirfylgni

Mikilvægt er að fylgja málum eftir þegar þeim er lokið. Eftirfylgni felst m.a. í því að:

 • Fylgjast með líðan þolanda og geranda Veita þolanda og/eða geranda viðeigandi stuðning og hjálp

 • Meta árangur inngrips.

 • Endurskoða inngrip ef ástæða þykir til.

Ef könnun máls leiðir í ljós að ekki er um einelti, kynferðislega áreitni eða ofbeldi að ræða þarf samt sem áður að huga að samskiptum og starfsumhverfi sem leiddu til ágreinings. Skoða mögulega þjálfun og leiðir til úrbóta í samskiptum.

Forvarnir

 • Árleg fræðsla um heilbrigð samskipti með áherslu á forvarnir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi.

 • Árleg vinnustaðakönnun, til að kanna og fylgja eftir hvort einelti og kynferðisleg áreitni mælist á vinnustaðnum.

 • Ábendingar og kvartanir sem snúa að samskiptum sem varða meinta eða mögulega áreitni eða mismunun er ávalt tekin alvarlega.

 • Hversu léttvægt sem atvik kann að virðast og hver sem á í hlut þá er það mikilvægur hluti af forvörnum og sálfræðilegu öryggi í starfsumhverfi Origo að setja málið strax á dagskrá og ræða við aðila.

 • Við ýtum undir opna og almenna umræðu um heilbrigð samskipti.

 • Við hvetjum starfsfólk til að tilkynna um óviðeigandi háttsemi til þess að hægt sé að bregðast við strax.

 • Trúum þolendum.

 • Tökum ábendingum alvarlega.

 • Hlustum.

 • Aðhöfumst.

 • Enga meðvirkni!