03/02/2025
Að hanna gott veður
Vedur.is er einn mest sótti vefur landsins og gegnir lykilhlutverki í daglegu lífi landsmanna. Origo sá um endurnýjun vefsins í samstarfi við Metall Design Studio með áherslu á betri notendaupplifun, aukið öryggi og aðgengi fyrir öll.

Þegar þjóðin þarf að vita hvort það sé rok á morgun eða hvort eldgos sé í aðsigi, er vedur.is fyrsti viðkomustaðurinn. Sem einn mest sótti vefur landsins gegnir hann lykilhlutverki í daglegu lífi landsmanna. Veðurstofa Íslands gegnir öryggishlutverki með því að veita landsmönnum áreiðanlegar upplýsingar um veður, náttúrufar og vá.
Origo fékk verkefnið að endurnýja þessa mikilvægu upplýsingagátt en Metall Design Studio annaðist vefhönnun. Veðurstofan hafði lagt mikla vinnu í undirbúning og greiningu á þörfum notenda, sem reyndist ómetanlegur grunnur fyrir verkefnið.
Við vildum ekki bara endurnýja tæknina, heldur skapa betri upplifun fyrir alla landsmenn.
Jóhanna Svala Rafnsdóttir
•
Stafrænn vöruhönnuður hjá Metall Design Studio
Þegar gamalt verður að nýju
Þrátt fyrir að vefurinn hafi unnið til vefverðlauna árið 2007 og þjónað notendum vel í mörg ár var kominn tími á endurnýjun. Helstu áskoranir voru:
Úrelt tækni: Vefurinn keyrði á 17 ára gamalli útgáfu af vefumsjónarkerfi.
Álagsvandamál: Vefurinn réði illa við mikil álag sem getur verið gríðarlegt við stóra viðburði.
Notendaupplifun: Vefviðmótið uppfyllti ekki nútímakröfur notenda, til dæmis stuðning við farsíma.
Öryggi: Mikilvægar upplýsingar þurftu að vera aðgengilegar án hindrana.
Mikið magn gagna: Samræma þurfti framsetningu á ólíkum tegundum gagna og táknum.
Notendur í fyrsta sæti
Hönnunarsprettir einblíndu á að þróa heildstæðar lausnir sem ekki aðeins leystu tæknileg vandamál, heldur bættu raunverulega upplifun notenda.

Við lögðum sérstaka áherslu á:
Að uppfylla stranga aðgengisstaðla.
Nýja nálgun á viðvörunarkerfinu sem gerir mikilvægar tilkynningar sýnilegri.
Notendaprófanir með fjölbreyttum hópi landsmanna.
Sem hönnuður og veðuráhugamanneskja er búið að vera algjör veisla að vinna í þessu verkefni. Að hanna eitthvað sem er skýrt, bæði í framsetningu og virkni, og vísindalega nákvæmt er línudans sem hefur verið gaman að dansa.
Jóhanna Svala Rafnsdóttir
•
Stafrænn vöruhönnuður hjá Metall Design Studio
Hönnun sem eflir notendaupplifun
Metall valdi mjúka og hlýja litapallettu, innblásna af gömlum kortagögnum Veðurstofunnar. Skýrleiki, einfaldleiki og nútímaleg hönnun voru leiðarljós verkefnisins.
"Við skoðuðum ógrynnin öll af sambærilegum vefjum og öppum til að fá innblástur. Eftir ítarlega prófun er valinn minimalískur teiknistíll fyrir veðurtákn sem virkar jafn vel í björtu og dimmu viðmóti. Sérstök áhersla var lögð á að táknin væru auðlæsileg bæði í töflum og á kortum, með því að setja þau á lítil spjöld sem tryggja skýrleika óháð kortabakgrunni," segir Jóhanna Svala, stafrænn vöruhönnuður hjá Metall Design Studio.
Rannsóknin fól í sér:
Greiningu á sambærilegum vefjum um allan heim.
Djúpa köfun í sögu Veðurstofunnar og framsetningu veðurgagna.
Notendakönnun og viðtöl við hagsmunaaðila.

Tæknin á bak við tjöldin
Með flutningi yfir í WordPress varð vefumsjón einfaldari fyrir starfsfólk Veðurstofunnar og jukum álagsþol vefsins.
Aðgengi í fyrsta sæti
Stöðugar prófanir og náið samstarf við Blindrafélagið tryggðu að vefurinn væri aðgengilegur öllum. Helstu aðgerðir:
Notkun sérhæfðra aðgengistóla eins og WAVE, Axe devtools og ARIA devtools.
Ítarlegar aðgengisprófanir í gegnum allt þróunarferlið.
Innleiðing lausna fyrir jafnt aðgengi allra notenda.
Öruggari miðlun mikilvægra upplýsinga
Metall lagði mikla áherslu á sýnilegar viðvaranir og fékk því viðvörunarkerfið nýja nálgun. Notendakannanir og samtöl sýndu að hefðbundnir viðvörunarborðar næðu ekki alltaf athygli notenda. Þróaðar voru nýjar leiðir til að tryggja að mikilvægar viðvaranir færu ekki fram hjá notendum, með áherslu á að gera þær sýnilegri á fleiri stöðum í viðmótinu.
Það hefur verið virkilega krefjandi líka þar sem hönnun þarf að uppfylla bæði sköpunargleði en líka kröfur vísindafólksins sem er á bakvið vef eins og þennan.
Jóhanna Svala Rafnsdóttir
•
Stafrænn vöruhönnuður hjá Metall Design Studio

Stöðug þróun fram á við
Nýr vedur.is er ekki endapunktur heldur stór varða í stafrænni umbreytingu Veðurstofunnar. Með því að halda áfram að fylgjast með notkun, fá endurgjöf frá landsmönnum er hægt að þróa vefinn í takt við breyttar þarfir.
Þetta verkefni sýnir að góður undirbúningur, náið samstarf við notendur og stöðug endurgjöf skilar bestum árangri. Nýr vedur.is er ekki bara uppfærður vefur - hann er öruggari, aðgengilegri og með tækni á bakvið tjöldin sem eru í betur stakk búinn til að þjóna íslensku þjóðinni.