03/02/2025

Stafræn umbreyting veðurs: Frá tækniskuld til framtíðarlausnar

Vedur.is er órjúfanlegur hluti af daglegu lífi Íslendinga og ein mest sótta vefsíða landsins. Origo sá um endurhönnun á vefnum, með heildstæðri umbreytingu á tæknilegum innviðum, þar sem sérstök áhersla var lögð á öryggi og áreiðanleika.

Þegar kemur að stafrænum umbreytingarverkefnum er fátt jafn krefjandi og að endurhanna kerfi sem þjónar þúsundum notenda á degi hverjum með mikilvægar upplýsingar sem þjóna almenningi. Vedur.is er einmitt slíkt kerfi - einn mest sótti vefur landsins sem þarf að vera aðgengilegur öllum landsmönnum, allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Verkefnið fól í sér umbreytingu á tæknilegum innviðum, gögnum og vefþróun sem þjónar notendum enn betur en áður.

Áskorunin: Eldri tækniinnviðir og ný tækifæri

Undir húddinu á eldri útgáfu vefs Veðurstofunnar, blasti við umtalsverð tækniskuld sem þurfti að takast á við. Gamla kerfið byggði á DB2 gagnagrunni og eldri innviðum sem stóðu í vegi fyrir þeim tækifærum sem nútímatækni býður upp á. Verkefnið kallaði á heildstæða nálgun þar sem hver þáttur kerfisins var endurhugsaður frá grunni.

Sá ávinningur sem verkefninu var ætlað er:

  • Aukinn áreiðanleiki: Kerfi sem er betur í stakk búið til að takast á við álagspunkta, svo sem við náttúruhamfarir eða óvenjulegar veðuraðstæður. Sem mikilvæg öryggisupplýsingaveita og miðlun fyrir íslensku þjóðina skipti gríðarlega miklu máli að gulltryggja uppitíma og álagsþol.

  • Bætt notendaupplifun: Aðgangur að nákvæmari og sjónrænni veðurupplýsingum með betra aðgengi fyrir öll og á öllum tækjum.

  • Minni rekstraráhætta: Með uppskiptingu kerfisins í einingar er hætta á altækum bilunum lágmörkuð.

  • Aukinn sveigjanleiki: API-væðing opnar fyrir nýja möguleika í þróun og notkun veðurgagna.

  • Framtíðarhæf lausn: Nútímaleg tækni og högun tryggir að kerfið getur þróast í takt við breyttar þarfir.

Nútímaleg högun fyrir framtíðina

Veðurstofan og Origo völdu að byggja nýja lausn á traustum grunni nútímatækni:

  • Sveigjanlegur bakendi: Með því að færa kerfið yfir í PostgresSQL og setja upp API Management millilag, opnuðum við fyrir nýja möguleika í þróun og notkun veðurgagna.

  • Öflugir framendainnviðir: Í samstarfi við Metall hönnunarstúdíó var framendinn byggður upp með áherslu á notendaupplifun og aðgengi. Við nýttum okkur Maptiler SDK fyrir lifandi kortaframsetningu veðurgagna, sem gerir upplýsingarnar mun aðgengilegri og sjónrænni.

  • Micro Frontend arkitektúr: Ein mikilvægasta nýjungin er uppskipting framendans í sjálfstæðar einingar. Þetta þýðir að ef einn hluti kerfisins verður óvirkur, halda aðrir hlutar áfram að virka - sem er ómetanlegt þegar kemur að þjónustu sem þarf að vera aðgengileg allan sólarhringinn.

VeðurkortVeðurkort

Öryggi ofar öllu

Fyrir samfélagslega mikilvægan vef eins og vedur.is er gríðarlega mikilvægt að huga að öryggi og skölun. Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins var því að tryggja uppitíma kerfa. Með Azure Kubernetes þjónustu er kerfinu mögulegt að skala sig sjálfvirkt eftir álagi.

Þetta reyndist sérstaklega mikilvægt þegar náttúruhamfarir eða óvenjulegar veðuraðstæður valda skyndilegri aukningu í heimsóknum. Öryggið var tryggt með:

  • Lokuðum netum innan lausnarinnar.

  • Takmörkuðum aðgangi að raunumhverfi.

  • Virkum OWASP öryggisreglum.

  • Sjálfvirkri vöktun og höfnun á óeðlilegum aðgangstalraunum.

Nýsköpun í gagnavinnslu

Ein stærsta nýjungin er nýtt gagnaumhverfi sem tekur við gögnum frá veðurstöðvum um allt land. Með innleiðingu sérstakts "cache handler" kerfis náðist að tryggja samræmda og áreiðanlega dreifingu gagna á milli kerfa, sem er grundvallaratriði fyrir kerfi af þessari stærðargráðu.

Cache handler (eða skyndiminni á íslensku) er hugbúnaðarlausn sem sér um að geyma og sækja gögn úr skyndiminni til að bæta afköst og minnka álag á aðalgeymslu eins og gagnagrunna eða ytri þjónustur.

Nýtt notendaviðmót vedur.isNýtt notendaviðmót vedur.is

Flókið tæknilegt umbreytingarverkefni

Umbreyting vedur.is sýnir vel hvernig hægt er að takast á við flókin tæknileg umbreytingarverkefni með skipulagðri nálgun, víðtækri tækniþekkingu og skýrri framtíðarsýn. Með því að skipta verkefninu niður í viðráðanlega áfanga og nota nútímalega tækni náðum við að umbreyta einum mest sótta vef landsins í sveigjanlega og örugga þjónustu sem mun þjóna notendum vel.

Verkefnið skilar tíðari og nákvæmari upplýsingum, í kerfi með öruggari uppitíma án þess að raska mikilvægri þjónustu.

Skýrleiki, einfaldleiki og nútímaleg hönnun

Lestu einnig: Að hanna gott veður

Nýr vedur.is er ekki endapunktur heldur stór varða í stafrænni umbreytingu Veðurstofunnar. Vefurinn er nú öruggari, aðgengilegri og með tækni á bakvið tjöldin sem er betur í stakk búinn til að þjóna íslensku þjóðinni.